news

Haustbréf til foreldra

24. 09. 2019

Haustbréf til foreldra

Nú er skólastarfið komið á fullt skrið og mikið fjör á Hamravöllum. Við erum að hefja fyrsta veturinn í 10 ár án Krummakots (útikennslustofu) og er Hamravellir því aftur orðin fjögurra deilda skóli. Einnig hefur nemendum fækkað á hverri deild sem gerir leikrýmið og aðstæður enn betri.

Heiðar hefur tekið við hreyfi- og tónlistarkennslu og Erla listakennslu. Allir nemendur leikskólans fara því í bæði listaskálann og salinn a.m.k. einu sinni í viku og er alltaf mikil tilhlökkun fyrir þeim stundum.

Við höldum áfram að vinna með vináttuverkefnið frá Barnaheill, með bangsanum Blæ. En vináttuverkefnið felst í því að fyrirbyggja einelti með því að móta góðan skólabrag, eiga góð samskipti og hafa jákvæð viðhorf til allra í hópnum. Eins er unnið eftir læsisstefnu Hafnarfjarðarbæjar „Lestur er lífsins leikur“. Mikil vinna hefur verið lögð í að efla faglegt starf innan leikskólans og að efla læsistengd verkefni með öllum aldurshópum. Við á Hamravöllum höfum notast mikið við efnið „Lubbi finnur málbein“, sem er kennsluefni þar sem unnið er með málhljóðin með bæði skemmtilegum sögum og lögum. Tekið er fyrir eitt málhljóð og orð í viku og unnið markvisst með það. Leikskólum í Hafnarfirði barst á dögunum gjöf sem inniheldur heildstætt námsefnið frá Bryndísi Guðmundsdóttur, „Lærum og leikum með hljóðin“. Foreldrum gefst kostur á að sækja ókeypis aðgang að smáforriti unnið úr námsefninu, til 1. október.

Nú höfum við fengið ágætis reynslu á notkun Karellen, sem er skráningarforrit og samskiptaforrit okkar við foreldra og erum við sérstaklega ánægð með nýjustu uppfærsluna (sem er þó aðeins aðgengileg í Apple tæki, eins og er). Í gegnum Karellen fá foreldrar aðgang að helstu upplýsingum varðandi barnið sitt, skilaboð, fjarveruskráningar, dagatal, matar- og svefnskráningar auk mynda. Farsíminn er því vinnutæki okkar og oft haft við höndina við bæði komu og brottför barna. Ef foreldrar komast einhverju hluta vegna ekki inn á sinn aðgang í Karellen, látið okkur þá vita og við kippum því í lið.

Nú fara haustflensunar að skella á okkur og viljum við minna á að gert er ráð fyrir að börn taki þátt í öllu starfi leikskólans, úti sem inni. Þess vegna getum við ekki tekið á móti veiku barni eða barni sem er að veikjast. Í leikskólanum er alltaf meiri hætta á smiti og útbreiðslu algengra umgangssjúkdóma, sökum nálægðar í leik og starfi. Ef barn veikist eða fær hita, þarf það að dvelja heima þar til það hefur verið hitalaust í 1-2 sólahringa. Þetta er nauðsynleg ráðstöfun til að forðast útbreiðslu sjúkdóma í leikskólanum og sjálfsögð tillitsemi við önnur börn og starfsfólk. Innivera eftir veikindi miðast við einn dag, í samráði við starfsmenn.

Að gefnu tilefni viljum við minna foreldra á að virða vistunartíma. Við skipuleggjum mönnun deilda út frá skráðum vistunartímum hverju sinni og viljum við því enn og aftur minna á mikilvægi þess.

Starfsfólk Heilsuleikskólans Hamravellir.

© 2016 - 2020 Karellen