Karellen
news

Dagur læsis 8.sept

02. 09. 2022

Dagur læsis.

Í tilefni af alþjóðlegum degi læsis sem er næstkomandi fimmtudag, 8. september ætlum við á Hamravöllum að setja af stað bókaorm og leyfa honum að stækka næstu vikurnar eða til 30. september. Við hvetjum foreldra til að lesa fyrir börn sín og eftir hvern lestur er nafn bókarinnar og nafn barnsins skráð og hengt á orminn. Með þessum hætti vinna börnin sameiginlega að því að búa til langan og skemmtilegan bókaorm á deildinni sinni.

Eitt af því besta sem þú getur gert fyrir barnið þitt er að lesa daglega fyrir það bækur sem hæfa aldri þess og áhuga. Í ritmáli er notaður margfalt stærri orðaforði en í talmáli. Börn sem fá daglegan lestur og samræður um efni bókarinnar, tileinka sér meiri orðaforða en börn sem missa af þeirri upplifun. Lestur fyrir börn er ein besta leiðin til að efla málþroska, stuðla að góðum lesskilning, bæta einbeitingu og athygli, svo fátt eitt sé nefnt. Lestur stuðlar að gæðastund með foreldri og styrkir tengslamyndun.

Foreldrar eru í lykilhlutverki, verum góðar málfyrirmyndir.

Hafnarfjarðarbær hefur nýlega gefið út bækling um málþroska barna og hlutverk foreldra í að efla málskilning og máltjáningu. Bæklinginn verður að finna í hólfum barna ykkar á fimmtudag.

© 2016 - 2022 Karellen