Karellen

Fjarvistir, veikindi og slys

Frí og veikindi skal tilkynna til leikskólans. Öll veikindi barna eru skráð í Heilsubók barnsins sem hvert barn á en það er einn liður í starfi heilsuleikskólans Hamravalla. Mikilvægt er að reyna að ná sambandi við kennara deildarinnar svo að skráningin verði sem nákvæmust. Æskilegt er að tilkynna fjarvistir barns eins snemma morguns og unnt er. Hægt er að hringja í leikskólann, en einnig er hægt að tilkynna veikindi í gegnum Karellen smáforritið. Ef barn veikist í leikskólanum er haft samband við foreldra og þess óskað að barnið verði sótt. Ef barn verður fyrir minni háttar slysi er strax haft samband við foreldra. Ef um meiriháttar slys er að ræða er unnið eftir slysaferli og samband haft við 112.

Innivera eftir veikindi

Útivera er mikilvæg til að uppfylla skilyrði fyrir aukna hreyfiþörf leikskólabarna en hreyfing er einn námsþáttur af mörgum sem skilgreindur eru í Aðalnámskrá leikskóla. Þar segir að í útiveru geti barnið hreyft sig frjálst og eflt hreyfiþroska sinn. Hamravellir eru heilsuleikskóli sem leggur áherslu á aukna hreyfingu og listsköpun og því höfum við útiveru í miklum hávegum. Sjálfsagt er þó að halda barni inni eftir veikindi í einn dag í samráði við deildarstjóra.

Lyfjagjöf í leikskólanum

Það er óæskilegt að gefa þurfi börnum lyf í leikskólanum. Sýklaly getur barnið fengið heima áður en það fer í leikskólann og aftur eftir leikskólatíma. En ef um langtímaveikindi er að ræða kemur leikskólinn til móts við þarfir barnsins og kennarar gefa barninu lyf. Deildarstjóri er þá ábyrgur fyrir móttöku og varðveislu lyfjanna. Við biðjum foreldra um að virða þessa reglu.

© 2016 - 2023 Karellen