Heilsuleikskólinn Hamravellir býður börnunum upp á kærleiksríkt og öruggt umhverfi, þar sem einstaklingurinn fær að njóta sín, hver á sinn hátt. Við venjum börnin við heilbrigðan lífstíl og vonum við að það muni fylgja þeim inn í fullorðinsárin.
Leikskólinn starfar eftir hugmyndafræði Heilsustefnunnar. Markmið leikskólans er að stuðla að heilsueflingu leikskólasamfélagsins með áherslu á næringu, hreyfingu og listsköpun í leik.
Öll börn ættu að alast upp við það að læra að virða heilsu sína og annarra sem ómetanleg verðmæti og grundvöll fyrir fullnægjandi lífi. Í Heilsuleikskólanum Hamravöllum er heilsuefling höfð að leiðarljósi í einu og öllu.
Dvalarsamningar
Við upphaf skólagöngu skrifa allir foreldrar undir dvalarsamning. Við hvetjum foreldra að kynna sér ákvæði dvalarsamnings barnanna vel. Í honum er m.a. skráður dvalartími en eftir dvalartímum barnanna er farið þegar starfsfólk er ráðið til skólans.
Skipulagsdagar
Á hverju skólaári eru fimm skipulagsdagar auk þess eru fjórir skertir dagar, þá opnar leikskólinn kl. 10. Þessir dagar eru skráðir á skóladagatalið strax á haustin og einnig auglýstir með fyrirvara. Þá er leikskólinn lokaður.
Fjarvistir, veikindi og slys
Frí og veikindi skal tilkynna til leikskólans. Öll veikindi barna eru skráð í heilsumöppu sem hvert barn á en það er einn liður í starfi heilsuleikskólans Hamravalla. Mikilvægt er að reyna að ná sambandi við kennara deildarinnar svo að skráningin verði sem nákvæmust. Æskilegt er að tilkynna fjarvistir barns eins snemma morguns og unnt er. Ef barn veikist í leikskólanum er haft samband við foreldra og þess óskað að barnið verði sótt. Ef barn verður fyrir minni háttar slysi er strax haft samband við foreldra. Ef um meiriháttar slys er að ræða er unnið eftir slysaferli og samband haft við 112.
Innivera eftir veikindi
Útivera er mikilvæg til að uppfylla skilyrði fyrir aukna hreyfiþörf leikskólabarna en hreyfing er einn námsþáttur af mörgum sem skilgreindur eru í Aðalnámskrá leikskóla. Þar segir að í útiveru geti barnið hreyft sig frjálst og eflt hreyfiþroska sinn. Hamravellir eru heilsuleikskóli sem leggur áherslu á aukna hreyfingu og listsköpun og því höfum við útiveru í miklum hávegum. Sjálfsagt er þó að halda barni inni eftir veikindi í einn dag í samráði við deildarstjóra.
Lyfjagjöf í leikskólanum
Það er óæskilegt að gefa þurfi börnum lyf í leikskólanum. Sýklalyf getur barnið fengið heima áður en það fer í leikskólann og aftur eftir leikskólatíma. En ef um langtímaveikindi er að ræða kemur leikskólinn til móts við þarfir barnsins og kennarar gefa barninu lyf. Deildarstjóri er þá ábyrgur fyrir móttöku og varðveislu lyfjanna. Við biðjum foreldra um að virða þessa reglu.
Fatnaður
Innifatnaður er vinnufatnaður barnins í leikskólanum og skal miða klæðnað barnsins við þá starfsemi sem þar fer fram. Útifatnað skal miða við veður hverju sinni. Barnið þarf að vera með auka inniföt til skiptana sem geymd eru í körfu í hólfi barnsins. Foreldrar fylla fatahólf barnsins af nauðsynlegum fatnaði á mánudögum. Hólfin eru svo tæmd á föstudögum. Foreldrar bera ábyrgð á því að yfirfara fatahólf barnanna daglega. Nauðsynlegt er að merkja fötin vel með nafni barnsins en forðast að skrifa skammstafanir. Merkt föt komast frekar til skila. Foreldrar koma sjálfir með bleiur fyrir börn sín. Sett er tilkynning í hólf barnsins í tíma þegar bleiur eru að klárast.
Afmæli
Haldið er upp á afmæli barnanna í leikskólanum Hamravöllum með því að börnin búa til sína eigin kórónu, þau velja sér afmælisdisk og afmælisglas sem þau nota í hádegismat og nónhressingu. Afmælissöngurinn er sunginn í samverustund fyrir barnið og einnig í fjöldasöng á sal þann föstudag í þeirri viku sem afmælisdagurinn er. Veitingar að heiman eru ekki leyfðar. Ef foreldrar og börn vilja bjóða öðrum leikskólabörnum í afmæli mælumst við til að það sé gert fyrir utan leikskólann, þ.e. EKKI með því að dreifa boðskortum í hólf barnanna. Einnig viljum við benda á að sýna aðgát við boð í afmæli og gæta þess að skilja ekki fáa útundan.
Lesið meira um leikskólann hér.